Skip to the content

Byggingar

Húsagerð
Torfbærinn og önnur endurgerð hús eru góðir fulltrúar fyrir sunnlenska húsagerð. Veggir eru að mestu hlaðnir úr móbergi og blágrýti, þök hellulögð undir torfi. Viðir eru að mestu af rekafjörum. Innsmíði er öll frá 19. öld, hin elsta er frá 1838.

Safnahúsið (aðalbygging)

Norðurhlutinn er byggður 1954-55, suðurhlutinn 1990-95. Tengibygging úr gleri milli gamla og nýja hússins er gestamóttaka safnsins. Hönnuðir nýbyggingar voru arkitektarnir Stefán Örn Stefánsson og Grétar Markússon. Safnahúsið ber vitni um samstöðu og menningu Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga.

Torfbærinn

Stofa frá 1896, svefnherbergi frá 1838, búr frá um 1850, eldhús frá um 1880, baðstofa frá 1895, skemma frá um 1830, krossbyggt fjós frá um 1880 og eldsmiðja frá um 1950.

Skógakirkja

Skógakirkja var vígð 1998, ný hið ytra, en innsmíði að mestu úr Kálfholtskirkju frá 1879. Gluggar eru frá 1898 úr Grafarkirkju. Klukkur eru frá Höfðabrekku um 1600 og frá Ásum í Skaftártungu frá árinu 1742. Allir kirkjugripir eru gamlir, frá 17. og 18. öld.

Holt

Íbúðarhús frá Holti á Síðu. Fyrsta timburhús í Vestur-Skaftafellssýslu, byggt að öllu leyti úr rekaviði af Árna Gíslasyni sýslumanni árið 1878. Þiljur í vesturstofu eru úr spítalaskipinu Sankti Páli sem strandaði í Meðallandi árið 1899. Búið var í húsinu til 1974. Húsið var endurbyggt í Skógum 1980.

Skólinn

Skólinn er barnaskóli frá Litla-Hvammi í Mýrdal, byggður 1901. Endurbyggður í Skógum 1999-2000. Hér gerði garðinn frægan Stefán Hannesson skólastjóri (1876-1960).

Skálarbærinn og skemman frá Gröf

Bæjarhús frá Skál á Síðu, byggð 1919 til 1920, endurbyggð í Skógum 1989. Fjósbaðstofa, frambær með eldhúsi og stofu. Hér var búið til 1970. Skemma frá Gröf í Skaftártungu frá um 1870. 

Rafstöðin

Rafstöðin er frá Breiðabólstað á Síðu, frá árinu 1929, sett upp af Guðmundi Einarssyni raffræðingi. 

Leiðsagnir um safnið

Leiðsagnir um safnið eru í boði fyrir pantaða hópa sem telja tíu eða fleiri á ensku, þýsku og íslensku. Einnig gefst stundum kostur að fá leiðsögn á frönsku og norðurlandamálum.

Leiðsagnir eru í boði frá opnun og fram til klukkutíma fyrir lokun.

Meiri upplýsingar um pantanir fyrir hópa og leiðsagnir má nálgast á booking@skogasafn.is eða í síma 487 8845.