Skip to the content

Þórður Tómasson

Þórður Tómasson fæddist árið 1921 að Vallnatúni undir Vestur-Eyjafjöllum og ólst upp við siði og venjur bændasamfélagsins á þeim tíma. Áhugi Þórðar á þjóðlegum fróðleik byrjaði mjög snemma og um fermingaraldur hefst hann handa við að safna gömlum munum sem tengdust sögu þjóðarinnar.

Árið 1949 hóf byggðasafnið starfsemi sína í húsi Skógaskóla. Fyrsta sýning safnsins var gerð aðgengileg fyrir almenning 1. desember 1949, en fyrstu árin var komið upp sýningum á munum safnsins í kennslustofum skólans á sumrin í samvinnu við sumarhótelið í Skógum.

Þórður Tómasson sá um safnið í byrjun og var ráðinn sem safnvörður Byggðasafnsins og kennari við Skógaskóla árið 1959.

Hann lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1941. Þórður var organisti við Ásólfsskálakirkju og síðar við Eyvindarhólakirkju og sat í sóknarnefndum þeirra í mörg ár. Hann sat í sýslunefnd Rangárvallasýslu 1979-89 og einnig í skólanefnd Vestur-Eyjafjallahrepps. Eftir Þórð liggja mörg rit um þjóðfræði og sagnfræði í bókum, ýmsum tímaritum og blöðum. Árið 1962 stofnuðu Þórður og Jón R. Hjálmarsson saman tímaritið Goðastein og sáu um útgáfu þess til ársins 1986. Þann 17. júní 1997 var Þórður gerður að heiðursdoktor við heimspekideild Háskóla Íslands (dr. phil. hon.) fyrir vel unnin störf í þágu rannsókna fyrir almenning.

Þórður Tómasson var einn helsti sérfræðingur landsins í þjóðlegum fræðum. Söfnun hans á fornmunum og fræðaskrif hans hefur verið ómetanlegt innlegg fyrir íslenska þjóðmenningu. Vafalaust hefði dýrmæt þekking farið forgörðum ef ekki væri fyrir elju Þórðar í söfnun og fræðimennsku. Þórður stóð vaktina á safninu í rúm 60 ár og veitti gjarnan gestum og gangandi leiðsagnir um safnið með sínum einstaka hætti sem oftar en ekki endaði á orgelleik og söng. Arfleifð Þórðar Tómassonar má bera vitni í Byggðasafninu í Skógum.

Þórður Tómasson lést 27. janúar 2022. Starfsmenn safnsins óska aðstandendum innilegrar samúðar.


Hér má sjá heimildamynd um Skógasafn og Þórð Tómasson frá árinu 2002 þar sem hann fjallar um safnið með sínum einstaka hætti.

 

Opnunartímar

Júní, júlí og ágúst frá 09:00 – 18:00

september - maí: 10:00 – 17:00

 

Leiðsagnir um safnið

Leiðsagnir um safnið eru í boði fyrir pantaða hópa sem telja tíu eða fleiri á ensku, þýsku og íslensku. Einnig gefst stundum kostur að fá leiðsögn á frönsku og norðurlandamálum.

Leiðsagnir eru í boði frá opnun og fram til klukkutíma fyrir lokun.

Meiri upplýsingar um pantanir fyrir hópa og leiðsagnir má nálgast á booking@skogasafn.is eða í síma 487 8845.