Skip to the content

Skógasafn

Byggðasafnið í Skógum hefur gengið í gegnum margar breytingar frá því að sýningin var gerð aðgengileg fyrir almenning fyrsta desember 1949 í Skógaskóla. Frumkvöðull að stofnun safnsins var Þórður Tómasson og hefur hann átt veg og vanda af velferð safnsins allt frá upphafi. Fyrstu árin lagði honum lið þáverandi skólastjóri Héraðskólans í Skógum, Magnús Gíslason, sem síðar lauk doktorspróf í þjóðfræði við Uppsala háskóla í Svíþjóð 1977. Skólastjórar Héraðsskólans í Skógum  studdu við bakið á safninu meðan til vannst. Fyrstu árin var komið upp sýningum á munum safnsins í kennslustofum skólans á sumrin í samvinnu við sumarhótelið í Skógum. Fljótlega varð þó ljóst að safninu var ekki sniðinn stakkur eftir vexti því það óx ört. Árið 1952 fékk safnið að gjöf áttæringinn Pétursey frá Jóni Halldórssyni kaupmanni í Suður-Vík og þá var ljóst að safnið þurfti nýtt og stærra húsnæði. Því fór svo að árið 1954 var hafist handa við að byggja sýningunni húsnæði og ári seinna var risið myndarlegt safnhús sem rúmaði Pétursey og gott betur. Þar var ekki látið staðar numið þar sem Þórður Tómason  hélt ótrauður áfram að viða að sér fleiri munum og fljótlega fór enn að þrengja að. Með byggingu safnhússins hófst uppbygging á gömlum bæjarhúsum á safnsvæðinu. Árið 1968 var fyrsta húsið flutt að Skógum og endurreist þar. Var það skemma frá Varmahlíð undir Eyjafjöllum sem langafi Þórðar byggði á bæ sínum um 1840.  Fljótlega komu svo skarsúðarbaðstofa, hlóðaeldhús, stofa og búr.  Þessi voru þó aðeins fyrstu húsin af mörgum og Skógakirkja var vígð 1998 og ári seinna var barnaskólinn frá Litla–Hvammi færður á Skóga. Allt voru þetta hús sem voru flutt úr Rangárþingi og Vestur- Skaftafellssýslu og endurbyggð í Skógum. 

Með byggingu safnhússins hófst uppbygging á gömlum bæjarhúsum á safnsvæðinu. Árið 1968 var fyrsta húsið flutt að Skógum og endurreist þar. Var það skemma frá Varmahlíð undir Eyjafjöllum sem langafi Þórðar byggði á bæ sínum um 1840. Fljótlega komu svo skarsúðarbaðstofa, hlóðaeldhús, stofa og búr. Þessi voru þó aðeins fyrstu húsin af mörgum og Skógakirkja var vígð 1998 og ári seinna var barnaskólinn frá Litla–Hvammi færður á Skóga. Allt voru þetta hús sem voru flutt úr Rangárþingi og Vestur- Skaftafellssýslu og endurbyggð í Skógum. Árið 2002 var svo reist 1510 fermetra stórt hús austan við Byggðasafnið undir Samgöngusafnið sem er hluti af Skógasafni og sýnir sögu samgangna og tækni á Íslandi.

Safnið hefur tekið að sér rekstur skólabygginga í Skógum eftir að framhaldsskólinn var lagður niður. Sverrir Magnússon, fyrrum skólastjóri Skógaskóla, tók við stöðu framkvæmdastjóra safnsins frá árinu 1999 og gegndi því starfi til ársins 2018 þegar Andri Guðmundsson tók við sem forstöðumaður safnsins. Andri er menntaður í þjóðfræði og hagnýtri menningarmiðlun og hefur starfað á safninu frá árinu 2015. Safnið er í eigu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu.

Leiðsagnir um safnið

Leiðsagnir um safnið eru í boði fyrir pantaða hópa sem telja tíu eða fleiri á ensku, þýsku og íslensku. Einnig gefst stundum kostur að fá leiðsögn á frönsku og norðurlandamálum.

Leiðsagnir eru í boði frá opnun og fram til klukkutíma fyrir lokun.

Meiri upplýsingar um pantanir fyrir hópa og leiðsagnir má nálgast á booking@skogasafn.is eða í síma 487 8845.