Skip to the content

Óvenjulegt víravirkishálsmen

Þetta hálsmen er enn sem komið er óskráð á sarpur.is. Það er úr víravirki, líkt og beltispörin sem við skoðuðum í þarsíðustu viku, en í gjörólíkum stíl. Sá sem smíðaði það var Kristófer Pétursson (1887-1977) sem ólst upp á Stóru-Borg. Hann lærði fyrst silfursmiði 1908 og stundaði hana í hjáverkum. Síðan helgaði hann sig svo eingöngu smíðinni þegar hann flutti á Kúludalsá á Akranesi 1946. Stuttu síðar sótti hann um meistararéttindi hjá Gullsmiðafélagi Íslands, enda þá búinn að stunda gullsmíði í nær fjörtíu ár.
Samkvæmt Kristófer sjálfum í viðtali við tímaritið Hugur og Hönd, þá leiddist hann út í silfursmíði eftir að hann sá fallega brjóstnál úr silfri sem vinnukona á Stóru-Borg átti. Hann lærði silfursmíði hjá Jóni Leví í fjóra mánuði en lærði víravirkissmíði af sjálfsdáðum. Einnig smíðaði hann mikið af sínum eigin verkfærum.
Eins og við töluðum um í þarsíðustu viku er víravirki yfirleitt hluti af íslensku þjóðbúningarsilfri. Það hefur verið smíðað hér á landi frá því stuttu eftir landnám. Stíllinn hefur þó breyst talsvert síðan þá. Víravirki á þó uppruna sinn löngu fyrir Íslandsbyggð, að minnsta kosti alla leið aftur til Súmeríu 2500 f.Kr.
Þetta hálsmen er að mörgu leiti óvenjulegt, enda Kristófer þekktur fyrir að hafa þróað sinn eigin stíl og því eru gripir hans mjög auðþekktir. Hálsmenið er blómalaga sem er hefðbundið fyrir íslenskt víravirki, en grindin í kringum blómið er mjög óvenjuleg. Vírinn í hálsmeninu er „snittur“ – það er að segja, hann hefur verið settur í gegnum skrúfgang sem gefur honum tennta áferð. Þetta er einkennandi fyrir íslenskt víravirki. Það sem er óvenjulegt við þetta hálsmen er að það hefur verið gert bæði fyrir grindarvírinn (vírinn sem myndar grindina) og líka við innbeygjurnar (vírinn sem settur er inn í grindina til að búa til mynstur). Venjulega eru bara innbeygjurnar snittar. Það að snitta vír gefur honum meira yfirborð til þess að endurvarpa ljósi. Slíkir gripir virðast því stundum skína meira en gripir þar sem það hefur ekki verið gert.
Þakkir til Dóru Jónsdóttur gullsmiðs fyrir sérfræðikunnáttu sína.

Leiðsagnir um safnið

Leiðsagnir um safnið eru í boði fyrir pantaða hópa sem telja tíu eða fleiri á ensku, þýsku og íslensku. Einnig gefst stundum kostur að fá leiðsögn á frönsku og norðurlandamálum.

Leiðsagnir eru í boði frá opnun og fram til klukkutíma fyrir lokun.

Meiri upplýsingar um pantanir fyrir hópa og leiðsagnir má nálgast á booking@skogasafn.is eða í síma 487 8845.