Skip to the content

Farartæki fornleifafræðings (og forseta)

Gripur vikunnar, nr. 1990-32, er á sýningu á Samgöngusafni Skógasafns en hann er að láni frá Þjóðminjasafni Íslands. Þetta er Willys jeppi framleiddur árið 1946 í Bandaríkjunum. Þennan jeppa keypti Kristján Eldjárn, þjóðminjavörður og seinna Forseti Íslands (1968-1980). Þá kostaði hann 9.000 krónur. Kristján keypti jeppann fyrir greiðslu sem hann hafði fengið fyrir að gera nafnaskrá upp úr Sturlunga sögu. Hann fékk leyfi fyrir jeppanum með því skilyrði að hann yrði meðal annars notaður í þágu Þjóðminjasafnsins til ferðalaga
Jeppinn var síðar í eigu bróður Kristjáns, Hjartar, sem var bóndi á Tjörn í Svarfaðadal. Hann var lengi vel notaður á búinu þar. Sonur Kristjáns, Ingólfur Eldjárn, lét gera upp jeppann og gaf hann á Þjóðminjasafn Íslands. Bíllinn er með upphaflegu blæjurnar en snemma var byggt yfir hann hús.
Willys jeppar voru fluttir til Íslands í talsverðu magni eftir seinni heimstyrjöldina. Þeir voru kallaðir „landbúnaðarjeppar“ því að það var einkum í þeim geira sem þeir voru notaðir. Þeir voru mikið notaðir við heyskap og hægt var að fá á þá sérstakar slátturvélar. Jepparnir voru stórt skref í því að vélvæða búskap í sveitum. Þeir voru svipaðir jeppum sem að Ford framleiddi til hernota og voru sterkbyggðir bílar oft notaðir til ferða þar sem voru engir eða slæmir vegir. Fyrstu svona jepparnir voru keyptir til Íslands fyrir lækna á landsbyggðinni og gerðu ferðalög að vetri mun auðveldari.

Leiðsagnir um safnið

Leiðsagnir um safnið eru í boði fyrir pantaða hópa sem telja tíu eða fleiri á ensku, þýsku og íslensku. Einnig gefst stundum kostur að fá leiðsögn á frönsku og norðurlandamálum.

Leiðsagnir eru í boði frá opnun og fram til klukkutíma fyrir lokun.

Meiri upplýsingar um pantanir fyrir hópa og leiðsagnir má nálgast á booking@skogasafn.is eða í síma 487 8845.