Skip to the content

Krókarefskefli

Gripur vikunnar er nr. R-7834 og var smíðaður af Sigurþóri Ólafssyni á Gaddastöðum og var brúðargjöf til Kristínu Skúladóttur frá Keldum 1936. Þetta er krókarefskefli, sem er mjög skrautleg gerð af þráðakefli, notað til að geyma þræði fyrir útsaum. Ekki öll kefli voru svona skrautleg – flest voru gerð úr sauðaleggjum. En krókarefskefli eru merkileg útskurðarlist út af fyrir sig, því að þau eru skorin út úr einum heilum viðarbút. Þau eru hvergi samsett, ekki einusinni kringlan, heldur þurfti sá sem skar út að skera út kringluna og kúluna innan úr henni . Hið sama á við um hlekkina á hvorum endanum. Sambærilegur útskurður finnst erlendis, til dæmis í Norður-Ameríku og eru hlutirnir gjarnan kallaðir „whimsies“ á ensku. Tilgangurinn með svona keflum var svo handverksfólk gæti spreytt sig í hversu flinkt það væri í útskurði. Eða jafnvel til að sanna að viðkomandi væri efni í smið og vert væri að koma þeim í iðnnám. Þetta kefli er smíðað úr furu, útskorið með tíglamynstri og báðir endar skornir út í blóm.
Nafnið er talið vísa í Króka-Ref, sem er aðalpersónan í Krókarefssögu. Hann var þekktur fyrir klæki sína og sagt var að hann hefði verið fyrstur til þess að tálga svona kefli.

Leiðsagnir um safnið

Leiðsagnir um safnið eru í boði fyrir pantaða hópa sem telja tíu eða fleiri á ensku, þýsku og íslensku. Einnig gefst stundum kostur að fá leiðsögn á frönsku og norðurlandamálum.

Leiðsagnir eru í boði frá opnun og fram til klukkutíma fyrir lokun.

Meiri upplýsingar um pantanir fyrir hópa og leiðsagnir má nálgast á booking@skogasafn.is eða í síma 487 8845.