Skip to the content

Mælikvarði

Gripur vikunnar er nr. R-6896, haglega útskorinn mælikvarði úr mahónívið. Hann var skorinn út af Filippusi Bjarnarsyni á Efri Hömrum í Holtum. Þetta er líklega síðasta verk hans en hann dó sama ár, 1901. Einar Valur Bjarnason læknir úr Vestmanneyjum gaf kvarðann á safnið.
Kvarðinn er meistaralega skreyttur tígla- og blómamynstri. Á eina hlið er skorinn út fiskur en á hina krókódíll. Öðru meginn er einnig útskorið „smíðað“ og hinumegin „MDBCI,“ eða 1901. Þetta er útgáfa af rómverska númerakerfinu sem varð til á miðöldum. Upprunalega kerfið notaði nefnilega ekki B, sem hér þýðir „300“.
Líkt og venjan var, fyrir uppfinningu metrakerfisins, þá notaði fólk líkamshluta sem mælistikur. Eins og til dæmis alin (framhandleggslengd), tommu og fet. Þetta var ekki alltaf hentugt því að auðvitað eru ekki allir eru með jafn breiða þumla (tomman) eða stíga jafn langt fet. Þess vegna voru til mismunandi staðlanir á þessum lengdum, eftir tíma og stað. Þessi mælikvarði notast hinsvegar ekki við neina af þekktum stöðlum á alin, feti og tommu.
Tveir pinnar á annarri hlið kvarðans marka 67,5 cm, sem er aðeins lengra en dönsk alin sem var notuð hér á landi (62,8 cm). Á hinni hliðinni er mörkuð lengdin 37,5 cm. Það er heldur lengra en danska fetið (30,5 cm). Á þriðju hliðinni eru sex naglar með reglulegu millibili, sem gætu markað tommuna. Danska tomman var rúmlega 2,6cm og þessi er 2,8 cm.
Ekki er ómögulegt að Filippus hafi notað óstaðlað fet, tommu og alin. Það er að segja, hann hafi notað eigin þumla, framhandlegg og fet sem mælieiningu í stað þess að fylgja danska staðlinum.

Leiðsagnir um safnið

Leiðsagnir um safnið eru í boði fyrir pantaða hópa sem telja tíu eða fleiri á ensku, þýsku og íslensku. Einnig gefst stundum kostur að fá leiðsögn á frönsku og norðurlandamálum.

Leiðsagnir eru í boði frá opnun og fram til klukkutíma fyrir lokun.

Meiri upplýsingar um pantanir fyrir hópa og leiðsagnir má nálgast á booking@skogasafn.is eða í síma 487 8845.