Skip to the content

Númeraspjald úr Gullskipinu

Gripur vikunnar er nr. R-1870. Þetta er afar fallega skreytt viðarkistulok úr Indíafarinu Het Wapen van Amsterdam, sem að strandaði á Skeiðarársandi 19. september 1667. Kistulokið var lengi notað sem númeraspjald yfir altarinu í Steinakirkju undir Eyjafjöllum og síðan í Eyvindarhólakirkju frá 1895. Á það hefur verið málað gyllt blómaker. Þegar það var notað sem númeraspjald var skrifað á það í krít eins og sést í myndinni.
Sumir kannast kannski við nafn skipsins. Het Wapen van Amsterdam var frá Hollandi en var á leið heim frá Indónesíu, enda kaupskip Austur-Indíafélagsins. Því hafði verið siglt norður fyrir Bretlandseyjar af ótta við árás breskra herskipa, enda Bretar og Hollendingar þá í stríði. Við Hjaltlandseyjar beið það eftir fylgd frá herskipaflota. Þaðan hraktist það til Íslands undan stormi og strandaði hér. Það var lengi draumaskip fjársjóðsleitarmanna á Íslandi, en heimildir um strandið bentu til þess að það hefði borið með sér gull og gersemar. Færri vita að þetta var eitt mannskæðasta strand sem hefur átt sér stað við Íslandsstrendur, en 200 manns voru um borð í skipinu og um 140 fórust. Aðeins náðist að bjarga 50-60.
Talið er að skipverjar hafi gert sitt besta til að bjarga öllu sem þeir gátu úr Het Wapen, en samkvæmt lögum var þetta vogrek og allt góss tilheyrði danska konungnum. Hollendingar voru ekki sáttir við þetta og töldu sig eiga flakið. En veturna 1667-1668 tókst sýslumönnum samt að koma miklu af varninginum til Bessastaða.
Skipið heillaði marga áratugum saman sem töldu það fullkomlega varðveitt undir sandinum ásamt gersemum sínum og þekkja það margir bara sem „gullskipið“. Nokkrum sinnum hafa verið gerðir leiðangrar til þess að finna það. Þær umfangsmestu eru kenndar við Berg Lárusson frá Kirkjubæjarklaustri og Kristinn Guðbrandsson í Björgun, milli 1960-1983. Meira má lesa um sögu strandsins og ýmsar leitir að gullskipinu fræga á https://eldsveitir.is/2020/01/05/gullskipid-strandadi-1667/

Leiðsagnir um safnið

Leiðsagnir um safnið eru í boði fyrir pantaða hópa sem telja tíu eða fleiri á ensku, þýsku og íslensku. Einnig gefst stundum kostur að fá leiðsögn á frönsku og norðurlandamálum.

Leiðsagnir eru í boði frá opnun og fram til klukkutíma fyrir lokun.

Meiri upplýsingar um pantanir fyrir hópa og leiðsagnir má nálgast á booking@skogasafn.is eða í síma 487 8845.