Skip to the content

Samgöngusafn

Samgöngusafnið

Þann 20. júlí 2002 var opnað nýtt sýningarhús í Skógasafni. Hér birtist þróun samgangna og tækni á Íslandi á 19. og 20. öld. Hlutverk Samgöngusafnsins í Skógum verður söfnun, varðveisla og sýning muna og minja um þróun samgangna í landinu. Um er að ræða safn samgöngutækja og sýningu er lýsir samgöngum á hverjum tíma og þróun þeirra. Þarna getur að líta gömul reiðtygi, fyrstu vélarnar í bílum og mótorbátum, gamla bíla, vegagerðartæki, verkfæri og ferðabúnað frá ýmsum tímum, gömul mótorhjól og margt fleira. Einnig er saga póstþjónustu, rafvæðingar og fjarskipta rakin á sýningunni.

Í júní 2008 opnaði Slysavarnafélagið Landsbjörg í samvinnu við Skógasafn nýja sýningu í Samgöngusafninu sem gerir áttatíu ára sögu björgunarsveitanna í landinu skil með tækjum, textum, myndum og ýmsum búnaði í um 170 fm rými.

Helstu samstarfsaðilar Samgöngusafnsins eru Þjóðminjasafn Íslands, Vegagerðin, Íslandspóstur, Rafmagnsveitur ríkisins og Landsbjörg en þessir aðilar hafa lagt muni til sýningarinnar. Sýningarhúsið er 1510 fermetra límtrésbygging og stendur austan við aðalbyggingu Skógasafns. Í húsinu er minjagripaverslun og veitingastaður.

Arkitektarnir Birgir Teitsson og Egill Guðmundsson hjá teiknistofunni Arkís hf. hönnuðu húsið. Haukur Ásgeirsson, verkfræðingur hjá Ístaki hf., sá um verkfræðihönnun og hönnuður sýningarinnar er Björn G. Björnsson, sýningarhönnuður hjá List og sögu.

Leiðsagnir um safnið

Leiðsagnir um safnið eru í boði fyrir pantaða hópa sem telja tíu eða fleiri á ensku, þýsku og íslensku. Einnig gefst stundum kostur að fá leiðsögn á frönsku og norðurlandamálum.

Leiðsagnir eru í boði frá opnun og fram til klukkutíma fyrir lokun.

Meiri upplýsingar um pantanir fyrir hópa og leiðsagnir má nálgast á booking@skogasafn.is eða í síma 487 8845.